Samningsvextir á gengislánasamningum eiga að gilda þrátt fyrir að lánin hafi verið dæmd ólögleg. Þetta er mat Elísabetar Guðbjörnsdóttir lögmanns en rætt er við hana í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

„Dómstólar geta ekki ákveðið ný samningsákvæði þegar um neytendasamninga er að ræða,“ segir Elísabet meðal annars en að hennar mati hefðu íslenskir dómstólar átt að dæma skilmála um gengistryggingu sem slíka ólögmæta og henda út því ákvæði í samningunum, en láta samningana og þar með vaxtakjörin að öðru leyti standa.

Þetta segir hún í ljósi nýfallins dóms fyrir Evrópudómstólnum sem dæmdi að spænskur dómstóll hefði ekki túlkað tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum rétt þegar hann ákvað að það væri ósanngjarnt að dráttarvextir sem kveðið var á um í samningi væru 29% og lækkaði vextina í 19%. „Dómstólum er ekki heimilt að fara einhvern milliveg og ákveða nýja vexti á neytendasamningum,“ segir Elísabet enn fremur í umfjöllun Morgunblaðsins.