„Þetta þýðir að ef þú ert með ólögmætt gengistryggt lán þá er óheimilt fyrir lánastofnanir að endurreikna það samkvæmt Árna Páls lögunum,“ segir Skarphéðinn Pétursson, lögmaður hjá Veritas lögmönnum. Hæstiréttur felldi í dag dóm í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka. Þar kemur fram að Borgarbyggð skuldi bankanum 128 milljónir króna í dag. Áður en málið var höfðað var talið að lánið stæði í 359 milljónum. Útreikningar samkvæmt Árna Páls lögunum ef lánið væri ólögmætt gengistryggt lán sýndu að það stæði í 213 milljónum.

Skarphéðinn segir í samtali við Viðskiptablaðið að dómurinn ætti að vera fordæmisgefandi að því gefnu að skuldari hafi staðið í skilum. „Þá ber að lækka lánið fyrir allar höfuðstólsgreiðslur áður en það er vaxtareiknað,“ segir Skarphéðinn enn fremur.

Ljóst þykir að ef þessi dómur er fordæmisgefandi þá getur það þýtt að lánastofnanir geti þurft að færa niður höfuðstól lána sem nemur milljörðum króna í heildina.

Dómur Hæstaréttar