„Við höfum aldrei gert samning um breytingar á jafn mörgum bílum. Samningurinn kemur okkur á kortið af krafti og við væntum þess að ná samningum um breytingar á talsvert fleiri bílum síðar,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks. Dótturfyrirtæki Arctic Trucks í Dúbaí Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur gert samning við Al-Futtaim Motors, umboðsaðila Toyota í furstadæmunum, um breytingar á allt að 400 Toyota Hilux-jeppum og Toyota FJ Cruiser-jeppum. Fyrirtækið skuldbindur sig til að kaupa 402 breytta jeppa af Arctic Trucks á næstu tólf mánuðum.

Samningurinn felur auk þess í sér að Arctic Trucks muni á næstu mánuðum hanna minni útfærslu af 35 tommu breytingum fyrir Toyota Land Cruiser 200-jeppann sem hentar til aksturs í furstadæmunum á hraðbrautum en þoli sandinn.

Breytingarnar skila milljörðum

Emil telur verðmæti samningsins í Dúbaí geta hlaupið á bilinu 400 til 500 milljónum króna. Til samanburðar er búist við að samningur sem Arctic Trucks náði við norska og sænska herinn fyrir tveimur árum um breytingar á bílum skili fyrirtækinu á bilinu 6-7 milljörðum króna á þessu ári. Breytingarnar eru á lokastigum og er búist við að fyrstu bílarnir verði að öllu óbreyttu afhentir eftir um mánuð.

„Þetta eru tiltölulega litlar breytingar. Þetta tryggir lágmarksfjölda bíla nú. En við höfum miklar væntingar og búumst við að þeir muni skila okkur stærri samningum um breytingar á fleiri bílum,“ bætir Emil við.

Höfuðstöðvar Arctic Trucks eru á Íslandi en auk þess rekur fyrirtækið starfsstöðvar í Noregi. Þá hefur fyrirtækið rekið breytingaverkstæði í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum síðastliðin tvö ár.

Arctic Trucks
Arctic Trucks
Andrew Squires, sölustjóri hjá Al-Futtaim Motors, og Hjalti V. Hjaltason, verkefnisstjóri hjá Arctic Trucks, handsala samninginn eftir undirritun.

Arctic Trucks
Arctic Trucks
Toyota FJ Cruiser eftir meðhöndlun Arctic Trucks

Arctic Trucks
Arctic Trucks
Toyota Hilux eftir breytingu hjá Artic Trucks