British Airways segir samstarfssamning við American Airlines um flug milli Evrópu og Ameríku vera í höfn. Samningurinn tekur líka til spænska flugfélagsins Ibera, sem er að renna saman við British Airways.

Flugfélögin þrjú munu nú vinna saman að flugum milli Bandaríkjanna, Mexíkó, Kanada og Evrópu og samnýta flugvélar og flugstöðvar.

Forstjóri Virgin Atlantic hefur gagnrýnt samstarfið og segir það skaða samkeppni. Aðrir telja þó að samstarf British Airways og American Airlines hafi í för með sér aukna hagræðingu sem muni skila sér að einhverju marki í lægra verði til neytenda.

Félögin hyggjast sækja um undanþágu frá samkeppnisreglum frá samkeppnisyfirvöldum Bandaríkjanna og eru bjartsýn á að slík undanþága fáist.

Hingað til hefur slík undanþága ekki fengist þar sem talið hefur verið að með samstarfi myndu American Airlines og British Airways ná markaðsráðandi stöðu á markaði með flugferðir milli Evrópu og Ameríku.