Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Samningurinn kveður á um 170.000 skammta til Íslands sem dugir fyrir 85.000 manns. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Áætlað er að Lyfjastofnun Evrópu veiti lyfinu markaðsleyfi í síðasta lagi 29. desember og að fyrstu skammtarnir frá Pfizer berist um áramót sem eiga að vera 21.000 skammtar.

Enn fremur er greint frá því að líklegt sé að fleiri en ein tegund bóluefna verði notað hérlendis. „Gera má ráð fyrir að bóluefnin kunni að henta ólíkum hópum með mismunandi hætti sem getur haft áhrif á forgangsröðunina“.

“Tryggðir hafa verið samningar af Íslands hálfu við tvo bóluefnaframleiðendur og sá þriðji er í burðarliðnum. Samtals tryggja þeir bóluefni fyrir rúmlega 280.000 einstaklinga,” kemur fram í tilkynningunni.

Stefnt er að því að birta áætlun um bólusetningu í næstu viku og mun þar meðal annars koma fram upplýsingar um forgangsröðun við bólusetningu og hvar hún mun fara fram.