Seðlabanki Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna sölu bankans á skuldabréfum Kaupþings. Í yfirlýsingunni kemur fram að þau bréf sem hér um ræðir voru gefin út af Kaupþingi og eru ekki af því tagi sem seðlabankar almennt eiga: Því stóð alla tíð til að selja þau við fyrsta tækifæri. Seðlabankinn mun eigi að síður kanna hvort eðlilega var staðið að upplýsingagjöf stjórnar Kaupþings á þessum tíma.

„Seðlabanki Íslands seldi skuldabréfin auk þess til þess að fyrirbyggja hagsmunaárekstra þegar sala Kaupþings á Arion banka og tengdir þættir kæmu til umfjöllunar og eftir atvikum afgreiðslu í Seðlabankanum. Engar upplýsingar lágu opinberlega fyrir um samning Kaupþings við Deutsche Bank,“ segir í yfirlýsingunni.

Seðlabankinn tekur enn fremur fram að skuldabréfin hafi verið seld í opnu ferli fyrir milligöngu alþjóðlega fjármálafyrirtækisins Morgan Stanley og allir sem uppfylltu almenn skilyrði (Mifid, KYC, AML) gátu gert kauptilboð. Bréfin voru síðan seld hæstbjóðanda. Engir fyrirvarar voru gerðir varðandi endurheimtur úr búinu enda hefðu slík ákvæði getað haft neikvæð áhrif á söluverð bréfanna og jafnvel gert þau óseljanleg að sögn Seðlabankans.

Að sögn Seðlabankans kom samningur Kaupþings og Deutsche Bank, sem kynntur var eftir sölu Seðlabankans á bréfunum, kom aðilum á þessum markaði á óvart, þar með talið Seðlabankanum. „Sala bankans á Kaupþingsbréfunum var eðlileg og skynsamleg á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir þegar ákvörðun um hana var tekin. Seðlabankinn mun eigi að síður kanna hvort eðlilega var staðið að upplýsingagjöf stjórnar Kaupþings á þessum tíma,“ segir að lokum.

Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni hér;


Í tilefni af umræðu um sölu Seðlabanka Íslands á skuldabréfum Kaupþings fyrir samtals um 19 milljarða króna síðastliðið haust tekur Seðlabankinn eftirfarandi fram:

Þau bréf sem hér um ræðir og gefin voru út af Kaupþingi eru ekki af því tagi sem seðlabankar almennt eiga: Því stóð alla tíð til að selja þau við fyrsta tækifæri. Seðlabanki Íslands seldi skuldabréfin auk þess til þess að fyrirbyggja hagsmunaárekstra þegar sala Kaupþings á Arion banka og tengdir þættir kæmu til umfjöllunar og eftir atvikum afgreiðslu í Seðlabankanum. Engar upplýsingar lágu opinberlega fyrir um samning Kaupþings við Deutsche Bank.

Skuldabréfin voru seld í opnu ferli fyrir milligöngu alþjóðlega fjármálafyrirtækisins Morgan Stanley og allir sem uppfylltu almenn skilyrði (Mifid, KYC, AML) gátu gert kauptilboð. Bréfin voru síðan seld hæstbjóðanda. Engir fyrirvarar voru gerðir varðandi endurheimtur úr búinu enda hefðu slík ákvæði getað haft neikvæð áhrif á söluverð bréfanna og jafnvel gert þau óseljanleg.

Samningur Kaupþings og Deutsche Bank, sem kynntur var eftir sölu Seðlabankans á bréfunum, kom aðilum á þessum markaði á óvart, þar með talið Seðlabankanum. Sala bankans á Kaupþingsbréfunum var eðlileg og skynsamleg á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir þegar ákvörðun um hana var tekin. Seðlabankinn mun eigi að síður kanna hvort eðlilega var staðið að upplýsingagjöf stjórnar Kaupþings á þessum tíma.