Gjaldmiðlaskiptasamningur á milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína og viljayfirlýsing á milli Landsvirkjunar og tveggja kínverskra fyrirtækja eru ekki tengdir í huga Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Samningurinn á milli seðlabankanna, sem undirritaður var í gær, hefur verið í undirbúningi lengi, allt frá því fyrir hrun. Utanríkisviðskipti við Kína auk annarra viðskipta, t.d. vegna orkumála, hafa aukist á síðustu árum og getur nýundirritaður samningur mögulega greitt enn frekar fyrir viðskiptum. Á síðasta ári var andvirði innflutnings frá Kína um 22 milljarðar króna og útflutnings um 11 milljarðar króna. Már segir að samningurinn hafi ekki mikil áhrif á afnám gjaldeyrishafta en sé jákvætt innlegg.