Og Vodafone, Síminn og Ríkiskaup hafa gert rammasamning um talsíma og internetþjónustu fyrir ríkisstofnanir. Að auki var samið um internetþjónustu við fyrirtækin EJS hf. og Skyggni hf. Samningurinn, sem nær til almennrar talsíma- og internetþjónustu, mun leiða til 15 til 30% lægra verðs en áður eftir atvikum, eftir því sem kemur fram í fréttatilkynningu Ríkiskaupa. Um er að ræða sparnað sem nemur 150 til 200 milljónum króna á ári fyrir ríkið í heild. Útboðinu var skipt í þrjá sjálfstæða flokka; fastlínuþjónustu, farsímaþjónustu (almenn talsímaþjónusta) og internetþjónusta.

Samningurinn sem nær til tveggja ára tekur gildi þann 1. september en möguleiki er á framlengingu samningsins til allt að tveggja ára til viðbótar, eftir því sem kemur fram í tilkynningu Og Vodafone. Í samningum felst að fyrirtækjum og stofnunum hins opinbera er tryggð fjarskiptaþjónustu á ákveðnum kjörum á samningstímanum. Um 230 stofnanir og fyrirtæki eru áskrifendur að samningnum. Þá munu sveitarfélög einnig geta gengið inn í samninginn.