Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði í dag fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. vegna fyrirhugaðrar kísilverksmiðju í Helguvík. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Framkvæmdir við kísilverksmiðjuna munu líklega hefjast á þessu ári og gæti verksmiðjan verið komin í fullan rekstur í byrjun árs 2017.

Áætluð ársframleiðslugeta verður 54.000 tonn af kísilmálmi og orkuþörfin er um 87 MW. Áformað er að framleiðslan verði seld á erlendum mörkuðum. Heildarfjárfesting verkefnisins er um 38 milljarðar íslenskra króna.

Í tilkynningunni kemur fram að líklegt þyki að yfir 100 starfsmenn muni vinna við uppbyggingu verksmiðjunnar. Þá verða 150 manns ráðnir til starfa við framleiðsluna þegar rekstur hefst.

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis og eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)