Eignarhaldsfélagið Farice ehf og bandaríska fyrirtækið Tyco Telecommunications hafa nýlega undirritað samning um hönnun, framleiðslu og lagningu ljósleiðarasæstrengs sem lagður verður frá Landeyjum til Blåbjerg á vesturströnd Danmerkur.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að sæstrengurinn, sem verður um 2250 km langur, hafi hlotið vinnuheitið DANICE og mun auka öryggi útlandasambanda verulega auk þess að flytja fjarskiptaumferð netþjónabúa sem áformað er að byggja hérlendis.

Haft er eftir Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra Farice í tilkynningunni : “Aukning almennrar fjarskiptaumferðar landsmanna er mikil, en einnig er búist við mikilli fjarskiptaumferð vegna þeirra netþjónabúa sem áforma að hefja starfsemi hérlendis á næstu misserum og árum. Nýi sæstrengurinn mun gera okkur kleift að reka fjarskiptasambönd til útlanda með miklu meira afhendingaröryggi en hingað til hefur verið hægt, við áætlum að reka báða sæstrengina, FARICE og DANICE í eins konar hringkerfi, sem eykur gæði þjónustu okkar verulega”, segir Guðmundur.

Í DANICE sæstrengnum verða fjögur ljósleiðapör, sem hvert um sig getur flutt 128 10 Gbit/s bylgjur, þ.e. samtals 1280 Gbit/s, og því er mesta afkastageta sæstrengsins rúmlega 5000 Gbit/s. Til samanburðar má nefna að afkastageta FARICE-1 sæstrengsins er 720 Gbit/s.

“DANICE sæstrengurinn verður byggður samkvæmt nýjustu sæstrengjatækni” segir Robert Munier, framkvæmdastjóri hjá Tyco Telecommunications, “við munum nota okkar öflugu kapalskip til að tryggja að tryggja bestu og öruggustu lagningu strengsins og hvað allan búnað varðar verður notuð nýjasta tækni sem Tyco hefur þróað á þessu sviði“. Áætlað er að lokið verði við lagningu strengsins í árslok 2008.

Um Tyco.

Tyco Telecommunications er leiðandi fyrirtæki á sviði ljósleiðarasæstrengja og hefur lagt yfir 80 sæstrengskerfi víða um heim á síðustu 50 árum. Höfuðstöðvar og verksmiðjur Tyco eru í New Jersey og New Hampshire í Bandaríkjunum.

Frekari upplýsingar um Tyco er að finna á vefsíðunni www.tycotelecom.com

Um Eignarhaldsfélagið Farice

Eignarhaldsfélagið Farice ehf (E-Farice) fer með 80% hlut Íslendinga í Farice hf, sem á og rekur FARICE-1 sæstrenginn, en Færeyingar eiga 20% í þeim sæstreng. Hluthafar í E-Farice eru íslenska ríkið, Hitaveita Suðurnesja hf, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Skipti hf og Og fjarskipti ehf.

Upplýsingar um Farice er að finna á vefsíðunni www.farice.is