Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa skrifað undir samning um skuldaafléttingu Grikklands. Nemur neyðarhjálpin til Grikkja 8,5 milljörðum evra sem mun gera landinu kleift að greiða 7 milljarða evra afborgun af lánum sem eru á gjalddaga í júlí.

Christine Lagarde forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins greindi í kjölfar samninganna frá því að hún myndi leggja tillögu fyrir stjórn sjóðsins um þátttöku í björgunaraðgerðum gagnvart Grikklandi.

Samkomulag fjármálaráðherra evruríkjanna er svar við þeim kröfum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði lagt fram um að evruríkin myndi veita Grikkjum skuldaafléttingu áður en þátttaka sjóðsins í björgunaraðgerðum kæmi til greina.