*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 3. október 2018 15:20

Samningur um stjórn fiskveiða undirritaður

Í dag var undirritaður samningur um stjórn fiskveiða utan lögsögu ríkja og samstarf um fiskirannsóknir og vöktun fiskistofna í Norður Íshafi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í dag var undirritaður samningur um stjórn fiskveiða utan lögsögu ríkja og samstarf um fiskirannsóknir og vöktun fiskistofna í Norður Íshafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Þar með lauk meira en tveggja ára ferli samningaviðræðna um gerð þessa mikilvæga samnings. Jóhann Sigurjónsson, sérlegur erindreki málefna hafsins í utanríkisráðuneytinu og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, leiddi samningaviðræðurnar af hálfu Íslands. Að samkomulaginu standa 10 aðilar, þ.e. Bandaríkin, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Ísland, Japan, Kanada, Kína, Noregur, Rússland, Suður Kórea, ásamt Evrópusambandinu.

Samningurinn nær til úthafsins og felur í sér að aðilar hans munu skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum ef ísinn þar hopar enn frekar og möguleikar til fiskveiða skapast. Einnig eru ákvæði um vísindasamstarf, fyrirkomulag tilraunaveiða, vöktun fiskistofna og umhverfis, upplýsingaskipti, og um ákvarðanatöku varðandi hvort og hvenær skal koma á fót svæðisbundinni fiskveiðistjórnunarstofnun.

Ekki er fyrirsjáanlegt að mögulegt verði að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á samningssvæðinu á allra næstu árum. Á grundvelli varúðarnálgunar ákváðu aðilarnir hins vegar að stofna til samnings nú til að fyrirbyggja stjórnlausar veiðar á þessu viðkæma hafsvæði á komandi árum þar sem hraðar breytingar eiga sér nú stað vegna hlýnunar og bráðnunar íss, þ.e. áður en kemur til mikilla veiðihagsmuna ríkja og hugsanlegra árekstra.

Að þessu leyti er því um að ræða tímamótasamning. Með samningnum er jafnframt lokað síðustu úthafsveiði“smugunni“ í Norðurhöfum. Í samræmi við ríkjandi hafrétt og úthafsveiðisamning Sþ er aðgangur að auðlindum á svæðinu háður því að viðkomandi ríki gerist aðili að þessum samningi.

Með aðild að samningnum mun aðkoma Íslands að ákvarðanatöku og rannsóknasamstarfi á þessu mikilvæga hafsvæði verða tryggð.