Reykjavíkurborg hefur gert samning við danska hugbúnaðarfyrirtækið Evenex um að hefja forvinnu að uppsetningu á hugbúnaðarlausn sem á að auðvelda allt utanumhald um útboð, innkaup og bókhald hjá borginni. Evenex hefur sett upp slíka lausn fyrir danska ríkið og fyrir opinbera og einkaaðila á öðrum Norðurlöndum.

Nield Stenfeldt, forstjóri Evenex.
Nield Stenfeldt, forstjóri Evenex.

Greint var frá samningnum á fréttamannafundi í dag. Niels Stenfeldt, forstjóri Evenex, segir að í raun sé um margþætta lausn að ræða, annars vegar viðmót fyrir Reykjavíkurborg og birgja hennar og hins vegar almennan markað, þar sem birgjar geta sett inn vörulista sína og hægt er að ganga frá kaupum. „Þessi markaður er sameiginlegur þeim sem nota hann, þannig þetta er ekki bara kerfi um viðskipti við borgina, heldur einnig á milli annarra notenda. Við teljum að þetta sé skilyrði fyrir því að kerfi eins og þetta verði tekið upp.“

Viðmótið og kerfið allt er hýst annars staðar en í borginni og notendur kerfisins nálgast það í gegnum netið.

Á morgun verður haldin ráðstefna um hvernig tengja má saman opinberar stofnanir og einkafyrirtæki á hagkvæman stafrænan hátt. Ráðstefnan, DIGITAL MOMENTUM, verður á Hotel Reykjavik Natura klukkan 8:30-15:30.