Í gær undirrituðu þeir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar og Atli Kristjánsson, fh. Rolf Johansen Co ehf., samning um að byggja upp starfsemi á átöppun á vatni frá Hornafirði.

Í frétt á heimasíðu Hornafjarðar kemur fram að þessir aðilar hafa undanfarna mánuði unnið að þessum samningi sem gerir ráð fyrir að uppbygging á verksmiðjunni verði hafin innan fjögurra ára frá undirritun samningsins og að átöppun hefjist innan fimm ára. Tíminn þangað til verði nýttur til að hanna og byggja upp veitu fyrir verksmiðjuna og vinna að uppsetningu verksmiðjunnar.

Í fréttinni kemur fram að við undirskriftina sagðist bæjarstjóri vera ánægður með það traust og þá samvinnu sem skapast hafði á milli sveitarfélagsins og Rolf Johansen Co ehf., Samningaviðræður hafa gengið vel. Fyrirtækið sé auk þess traust og vel rekið og hafi góða viðskiptasögu.

Markmið sveitarfélagsins er að auka fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja stoðir samfélagsins. Samningurinn sé áfangi á þeirri för. Gert er ráð fyrir að þegar verksmiðjan hefur rekstur af fullum þunga muni skapast fjöldi starfa við hana auk afleiddra starfa.