Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Vesturlands þess efnis að ólögmætt hefði verið að skilja veiðirétt frá jörðinni Ferjubakka III í Borgarfirði við sölu hennar árið 1943. Samkomulag jarðareigenda um skiptingu veiðiréttinda, frá árinu 1891, heldur því gildi sínu.

Á svokallaðri Ferjubakkatorfu eru fjögur býli. Þrjú þeirra bera nafn Ferjubakka en hið fjórða er kallað Ferjukot. Í fyrrgreindu samkomulagi frá lokum 19. aldar var veiðiréttindum milli jarðanna skipt þannig að Ferjubakkajarðirnar fengju alla veiði frá landamerkjum að vestan að Ferjukotssíki. Frá téðu síki ætti Ferjukot veiði að efri Straumaklöpp, að meðtöldum svokölluðum Nauthólma. Ferjubakki fengi síðan veiðina við neðri Straumaklöpp.

Árið 1938 lést Sigurður Fjeldsted, bóndi í Ferjukoti, en þá var hann eigandi allra býlanna á torfunni að undanskildum Ferjubakka II. Við andlát hans fékk Sesselja dóttir hans jörðina Ferjubakka III í arf en henni fylgir bæði veiðiréttur í Norðurá og Hvítá. Árið 1943 var Ferjubakki III seld ábúenda hennar, Jóhannesi Einarssyni, en með samningi við söluna var veiðiréttur jarðarinnar skilinn frá jörðinni.

Stefnendur málsins nú voru erfingjar téðs Jóhannesar en til varnar voru afkomendur Sesselju. Töldu stefnendur að óheimilt hefði verið samkvæmt þágildandi laxveiðilögum að skilja veiðiréttinn frá og því bæri að virða það samkomulag að vettugi. Fyrrgreint samkomulag ætti því að taka gildi.

Stefndu töldu á móti að málið væri nokkuð vanreifað og að ýmsir réttarfarsannmarkar væru á því. Héraðsdómari málsins taldi að vissulega mætti fallast á það en að úr því hefði verið bætt undir rekstri málsins. Landsréttur staðfesti síðan dóm héraðsdóms að mestu með vísan til forsendna hans.