Í dag undirritaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fjárfestingarsamning við Silicor Materials hf. um byggingu verksmiðju á Grundartanga til að framleiða sólarkísil. Þetta kemur fram á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins . Jafnframt undirritaði ráðherra yfirlýsingu um sókn á sviði nýsköpunar á sviði efnistækni, m.a. ál- og kísilvinnslu.

Áætluð ársframleiðsla verksmiðjunnar er um 19.000 tonn. Verður þar beitt nýrri aðferð sem byggir á því að bræða kísilmál í fljótandi áli. Reiknað er með að framleiðsla geti hafist á seinni árshelmingi 2016 og að unnt verði að ná fullum afköstum árið 2017.

Í fjárfestingarsamningnum felast ýmsar tímabundnar ívilnanir fyrir þetta tiltekna verkefni og er þar fyrst og fremst um lægri tekjuskattsprósentu, tryggingargjald og fasteignaskatt að ræða. Fjárfestingarsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og heimildar frá Alþingi.