Undirritaður hefur verið samningur milli Orkudeildar Orkustofnunar fiskeldisbrautar Hólaskóla um rannsóknir á endurnotum vatns við landeldi og orkusparnað því samfara. Markmið rannsóknanna er að sýna fram á að endurnot vatns sé raunhæfur kostur við landeldi við íslenskar aðstæður, og að umtalsverð orka sparist við endurnot vatnsins.

Til að sýna fram á kosti einfaldrar endurnýtingar verður settur upp endurnýtingarbúnaður á svokölluðum ?pilot scale" við fiskeldisstöð Hólalax, sem nægir til að framfleyta 1-2 kerjum eða um 20-50 tonna ársframleiðslu.
Kerfið verður tengt mælibúnaði sem símælir styrk súrefnis og kolsýru og uppfærast mæliniðurstöður sjálfvirkt á heimasíðu verkefnisins. Einnig verða niðurstöður annarra mælinga birtar jafnóðum og þær liggja fyrir á heimasíðunni, t.d. niðurstöður um styrk ammóníaks og gruggs og fóðrunartölur.

Vöxtur og viðgangur fisks verður einnig skoðaður með reglulegu millibili og þær niðurstöður einnig birtar á heimasíðunni. Með þessum hætti verður fiskeldisfyrirtækjum gert kleyft að fylgjast með framgangi tilraunanna um leið og þær fara fram. Einnig geta þeir heimsótt eldisstöðina, skoðað búnað og fengið upplýsingar um framleiðendur búnaðar og leiðbeiningar um val á búnaði.

Sem fyrr sagði verður verkefnið unnið í fiskeldisstöð Hólalax, sem er í fullum rekstri og mun eldisfyrirtækið borga hluta kostnaðar við tilraunirnar.