Samningur um lán Pólverja til Íslendinga, upp á sem svarar 200 milljónum Bandaríkjadala, var undirritaður í Istanbul í Tyrklandi í dag.

Undir samninginn skrifuðu Jan Vincent-Rostowski, fjármálaráðherra, fyrir hönd Póllands og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fyrir hönd Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Lánið frá Póllandi er viðbót við lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) til Íslands, sem nemur 2,1 milljarði Bandaríkjadala, „og er veitt til stuðnings við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda sem stofnað var til í samstarfi við  AGS í þeim tilgangi að koma á jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum  eftir fjármálakreppuna sem skall yfir haustið 2008," eins og segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að lánsféð muni efla lausafjárstöðu Íslendinga í erlendum gjaldeyri.

Lánið verður borgað út í þremur jöfnum hlutagreiðslum sem eru tengdar annarri, þriðju og fjórðu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands með AGS, og er hver greiðsla háð því að viðkomandi endurskoðun hafi verið samþykkt.