Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að samningur íslenskra stjórnvalda við Vodafone um leigu á ljósleiðarastreng í eigu NATO feli ekki í sér ríkisaðstoð.

Forsaga málsins er sú að í apríl 2008 efndu Ríkiskaup til útbðs á afnotum tveggja ljósleiðara af þeim þremur sem áður voru starfræktir í þágu varnarmála. Markmið þess útboðs var að draga úr kostnaði íslenska ríkisins af rekstri ljósleiðara, auka aðgang almennings að bandvídd og auka samkeppni á markaði fyrir gagnaflutninga. Fimm tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum. Varnarmálastofnun undirritaði á grundvelli útboðsins samning við Vodafone um leigu á öðrum ljósleiðaranna í febrúar 2010. Í ársbyrjun 2010 vildu aðrir bjóðendur ekki ganga til samninga á grundvelli útboðsins vorið 2008, enda höfðu aðstæður breyst vegna fjármálahrunsins.

Hagsmunaðili kvartaði til ESA árið 2010 yfir því að samningurinn við Vodafone fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð. ESA komst að þeirri niðurstöðu árið 2012 í kjölfar frumrannsóknar að samningurinn hafi verið gerður í kjölfar vel auglýstrar og opinnar útboðsmeðferðar og fæli ekki í sér ríkisaðstoð. Ákvörðun ESA var skotið til EFTA-dómstólsins, sem í janúar 2014 felldi hana úr gildi.

ESA hóf formlega rannsókn í júlí 2014 en á grundvelli þeirra upplýsinga sem safnað var komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að umsamið verð leiguréttarins hafi samræmst markaðsvirði og felur samningurinn því ekki í sér ríkisaðstoð.