Fjárfestingarsamningur ríkisstjórnarinnar við fiskeldisfyrirtækið Matorku er á dagskrá fundar atvinnuveganefndar sem nú stendur yfir á Alþingi.

Landssamband fiskeldisstöðva hefur gagnrýnt samninginn harðlega. Benda þau á að fjöldi fyrirtækja séu þegar í bleikjueldi á Íslandi og að með samningnum sé verið að mismuna og skekkja samkeppni á markaðnum.

„Þetta er svipuð löggjöf og er í Evrópusambandinu og Noregi og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við samninginn við Matorku þannig séð,“ segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Aftur á móti vekur samningurinn upp ákveðnar siðferðisspurningar um þessa samninga. Sérstaklega gagnvart iðnaði sem er dálítið séríslenskur og á smáum skala eins og til dæmis bleikjueldið. Við getum líka tekið dæmi um það ef eitthvað stórfyrirtæki myndi ákveða að fara í stórfellda framleiðslu á harðfiski og setja þannig rekstur annarra lítilla fyrirtækja sem framleiða harð- fisk í uppnám. Spurning er hvort það þurfi að vera í nýju lögunum ákvæði um að svona atriði skuli sérstaklega skoðuð.“

Spurður hvort honum þyki líklegt að frumvarpinu sem nú er til umræðu á þinginu verði breytt í þessa veru svarar Jón: „Það er atriði sem við munum klárlega skoða. Ég held að það sé mikilvægt í þessu samhengi. Þetta er eitthvað sem menn sáu ekki fyrir í þessari löggjöf en vekur vissulega upp spurningar þegar þetta birtist okkur svona.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .