Allir helstu norrænu fjölmiðlarnir  fjalla um gjaldeyrisskiptasamninga Seðlabanka Íslands við  seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur og um leið um styrkingu krónunnar það sem af er deginum. Af sumum fyrsögnunum að ráða virðast frændur okkar í Skandinavíu líta á samningana sem eins konar neyðaraðstoð við Íslendinga.

„Samnorræn Marshallaðstoð handa Íslendingum“,  segir þannig í fyrirsögn  á vef Dagens Næringsliv í Noregi, „Gjedreim  lengir í heningaról Íslendinga“, segir í fyrirsögn á vef Aftenposten en Gjedreim er bankastóri norska seðlabankans.  „Bernstein lofar aðþrengdum Íslendingum milljörðum króna“ segir í fyrirsögn á vef Børsen en Bernstein er seðlabankastjóri danska seðlabankans. Dagens Industri í Svíþjóð er einna hlutlausast í fréttaflutningi sínum og talar einfaldlega um aðstoð frá sænska seðlabankanum og raunar er í fréttinni haft eftir Carl Hanner, sérfræðingi hjá SEB bankanum að þetta „afar jákvætt fyrir Ísland“.