„Þegar tekist er á við þær áskoranir sem Norðurlöndin standa andspænis í alþjóðlegu fjármálakreppunni er afar mikilvægt að marka stöðuga langtímastefnu í fjármálum í framtíðinni. Á óvissutímum er ábyrgð og samstarf nauðsynlegt og það er mikilvægt að sýna greinlega samstöðu með Íslandi, sem um þessar mundir gengur í gegnum afar erfitt skeið”, segja norrænu fjármálráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út eftir fund þeirra í Helsinki. Á fundinum var fjármálakreppan rædd og þær áskoranir sem Norðurlöndin standa andspænis vegna hennar.

Fjármálaráðherrarnir urðu sammála um umboð fyrir þá embættismannanefnd sem forsætisráðherrarnir settu á stofn. Nefndinni er ætlað að fylgja eftir þeirri áætlun sem gerð verður til að koma á jafnvægi á Íslandi, ásamt því að ræða og samræma aðgerðir til þess að tryggja að Ísland nái að komast úr þeirri erfiðu stöðu sem landið er í. Auk þess að fylgja eftir áætlun IMF á nefndin meðal annars að einbeita sér að því að skoða meðal- og langtíma forsendur íslensks efnahagslífs.

Í tengslum við blaðamannafund sem haldinn var eftir fundinn undirrituðu ráðherrarnir einnig samning við eyríkin Jersey og Guernsey um varnir gegn skattaflótta. Áður hafa ráðherrar Norðurlandanna undirritað svipaðan samning við eyjuna Mön. Samningurinn veitir skattayfirvöldum aðgang að upplýsingum um innstæður og tekjur skattskyldra þegna. Norðurlöndin munu leggja aukna áherslu á að ná samningum við fleiri svonefnd skattaskjól. Samningurinn er gerður í kjölfar umfangsmikils starfs sem þegar á sér stað og felst meðal annars í samningaviðræðum við Arúba, Bermúda og Hollensku Antillaeyjarnar.

Þann 21. október áttu Norðurlöndin viðræður við fjármálaráðherra annarra OECD ríkja, þar á meðal Frakklands og Þýskalands, um mikilvægi þess að vinna við að stöðva skattaflótta verði að eiga sér stað innan ramma ESB-samstarfsins og í samstarfi við aðildarríki OECD.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði.