Einn stofnenda Birkis ráðgjafar telur að lausamennska sérfræðinga muni aukast hér á landi líkt og erlendis sem geti verið svar við auknu atvinnuleysi. Fagstjóri til leigu snýst um að leigja út sérfræðinga á ýmsum sviðum til fyrirtækja en Smásala 360° er sérfræðiráðgjöf til smásala.

„Ég hef trú á að lausamennskuverkefni eins og Fagstjóri til leigu séu hluti af leiðinni inn í framtíðina, sérstaklega í því ástandi sem kórónuveirufaraldurinn hefur skapað á vinnumarkaði sem hefur flýtt ýmissi þróun. Við sjáum mörg tækifæri í því að fyrirtæki sem ekki hafa ráð á að vera með starfsmann í fullu starfi geti á þennan hátt fengið aðgang að alls kyns þekkingu og hæfni með því að borga kannski 30 til 50% starf, og haft sveigjanleika í því eftir árstíma eða öðrum sveiflum í starfseminni," segir Guðmundur Páll Gíslason, einn stofnenda Birkis ráðgjafar.

„Alveg eins og fólk getur með nýjum lausnum samnýtt bíla þá geta fyrirtæki samnýtt fólk, sem allir græða á. Svona fyrirkomulag er auðvitað búið að þróast mjög hratt í Bandaríkjunum þar sem verktakavinna og lausamennska, eða á ensku „gig economy", er sífellt hærra hlutfall vinnumarkaðarins, og er því spáð að allt að helmingur hans þar í landi geti farið í þetta form á næstu árum. Við erum auðvitað eftir á í þessu hér á Íslandi, en við sjáum að þessi þróun er byrjuð hér."

Ætla að fjölga í hópnum

Birki ráðgjöf var meðal annars stofnuð af þeim Guðmundi Páli og Rakel Heiðmarsdóttur en hjá félaginu starfa nú sex sérfræðingar á mismunandi sviðum.

„Okkar markmið nú er að fjölga í hópnum og erum við því að leita að öflugum liðsmönnum. Birki ráðgjöf er sett upp eins og sterkur frontur sem sér um að senda út reikninga og annað utanumhald, en hver ráðgjafi eða fagstjóri fær allar tekjur sinna verkefna beint til sín. Við höfum flest verið með okkar eigin starfsemi en það er mikill munur á því og vera í svona hópi þar sem við getum leitað til hvert annars og fengið aðstoð," segir Guðmundur Páll.

„Við erum með ýmsa sérfræðinga í hópnum, til dæmis doktor í mannauðsmálum, hagfræðing, verkfræðing og viðskiptafræðinga. Við sem störfum í þessu hér hjá Birki höfum öll starfað hjá venjulegum fyrirtækjum, milli 9 til 5 og verið á hamstrahjólinu má segja, en við sjáum að fólki af yngri kynslóðinni hefur áhuga á að vera ekki alveg bundið á þann hátt heldur vill hafa meiri tíma fyrir áhugamál, fjölskylduna, ýmis eigin verkefni og svo framvegis."

Guðmundur Páll segir að Fagstjóraverkefnið sé ein aðalvara Birkis ráðgjafar og sú vinsælasta, enda fyrirtækið stofnað upphaflega utan um það.

„Annað verkefni sem við erum komin af stað með heitir 360° Smásala sem snýst um að hjálpa verslunum að koma auga á tækifærin í tækninýjungum, vöruþróun og breyttu hugarfari neytenda. Verkefnið byggir á bakgrunni mínum í smásölu, bæði hjá Högum sem og erlendis, en þá saknaði ég þess alltaf að geta fengið íslenska ráðgjöf, því það vantaði hér fólk sem hafði áhuga á og þekkingu á smásölu, og þurftum við því alltaf að leita erlendis,“ segir Guðmundur Páll.

„Til liðs við verkefnið höfum við fengið sérfræðinga víða að sem við getum kallað í þegar á þarf að halda. Til að mynda Sigurð Hansen sem starfað hefur í smásölu í tvo áratugi, og Eddu Blumenstein en hún er doktor í ráðgjafasálfræði og mikill sérfræðingur í OnmiChannel, sem þýtt hefur verið sem alverslun og snýst um í raun alla snertifleti viðskiptavina við verslunina. Við höfum verið að bjóða fyrirtækjum upp á smá prófun, þar sem við metum þjónustuna, hversu vel starfsfólkið bregst við, flæði viðskiptavina um verslunina, verðmerkingar og fleira. Það er margt sem hægt er að bæta í þessu hér á landi, og vantar þá kannski helst upp á þjálfun og virðingu fyrir starfsfólkinu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .