Farþegar Samoa Air sem eru í yfirþyngd verða rukkaðir aukalega. Þetta kemur fram í frétt á The Sidney Morning Herald. Flugfélagið er hið fyrsta í heimi sem tekur upp þetta aukagjald fyrir farþega í þyngri kantinum.

"Þetta er lang réttlátasta leiðin," segir Chris Langton forstjóri Samoa Air. Flugfélagið mun sennilega græða eitthvað á nýja gjaldinu en Samoa eyjar lenda iðulega á topp tíu lista þjóða sem glíma við offitu. Chris segist vona að með aukagjaldinu fari fólk að huga betur að heilsunni og verði meðvitaðara þegar kemur að offitu.