Á vef Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, er í dag farið hörðum orðum um ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að synja skiplagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár staðfestingar, að hennar sögn þar sem þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu hafi stangast á við skipulags- og byggingarlög.

Samorka segir ráðherrann áður hafa tafið þetta ferli með úrskurðum um formsatriði sem þá tengdust auglýsingum á breyttu skipulagi. Spurð um afstöðu til virkjana í neðri hluta Þjórsár segir ráðherrann rétt að fara varlega í nýjar virkjanir.

„Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega mótfallinn þessum framkvæmdum, og þá vanhæfur til að úrskurða um formsatriði sem þeim tengjast?“ er spurt á vef Samorku.

„Þá vekur athygli að ráðherrann virðist ekki skilja eðli endurnýjanlegra orkulinda, heldur líkir hún nýtingu þeirra við námugröft. Loks má setja spurningamerki við að það sé í þágu „almannahagsmuna“ að setja jafnvel stórframkvæmdir í uppnám, fyrir nú utan þá sérkennilegu stjórnsýslu að segja niðurstöðuna borðleggjandi eftir fjórtán mánaða yfirlegu í ráðuneytinu,“ segir þar janframt.

Sjá nánar á vef Samorku.