Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“

Á vef Samorku kemur fram að samtökin líti þannig á að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Lögunum var breytt árið 2005 og í frumvarpinu segir meðal annars, um helstu breytingar á lögunum, að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

„Hlutverk Skipulagsstofnunar er fyrst og fremst það, í þessu tilfelli, að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti,“ segir á vef Samorku.

Sjá nánar á vef Samorku.