Finnska tryggingafélagið Sampo, sem Exista [ EXISTA ] á 20% hlut í, hefur fengið leyfi hjá sænska fjármálaeftirlitinu til þess að auka hlut sinn umfram 10% í Nordea bankanum, en Sampo á nú um 9.36% í bankanum. Greint var frá þessu í Vegvísu Landsbankans. Sampo hefur fjárfest í bankanum jafnt og þétt og er orðrómur uppi um að það hafi í hyggju að kaupa 19,9% hlut sænska ríkisins í Nordea þegar hann verður seldur. Einnig er orðrómur uppi um væntanlega sameiningu Nordea og annars banka í þeim tilgangi að skipta upp bankanum. Hlutabréf Sampo lækkuðu um 1,1% í Kauphöllinni í Finnlandi í 16.89 EUR á hlut en Nordea hækkaði um 1,3% í Kauphöllinni í Stokkhólmi, í 86,7 SEK á hlut.