Finnska tryggingafélagið Sampo hefur ekki áhuga á að eignast allan hlut sænska ríkisins í Nordea, stærsta banka Norðurlanda. Þetta kom fram á fundi Björns Wahlroos, forstjóra Sampo, með fjárfestum í gær að því er Reuters fréttaþjónustan greinir frá. Nokkrar vangaveltur hafa verið um hugsanlega aðkomu Sampo að því þegar sænska ríkið selur 19,9% hlut sinn í Nordea eins og boðað hefur verið.


Wahlroos sagði að þó að þeir hefðu ekki áhuga á að kaupa allan hlut ríkisins í Nordea þá litu þeir svo á að félagið væri góð fjárfesting og hefðu þeir því áhuga á að kaupa meira í félaginu. Wahlroos sagðist á fundinum vænta frekari samþjöppunar á bankamarkaði en taldi að SEB, Handelsbanken eða Swedbank ættu mesta samleið með Nordea og því eðlilegast að gera ráð fyrir því að einhver þeirra sameinaðist bankanum.


Sampo á nú rúmlega 1,7% hlut í Nordea, en Exista keypti nú nýverið 15% hlut í Sampo. Sampo hefur aukið hlut sinn jafnt og þétt síðan í haust en félagið er með 380 milljarða króna í sjóðum eftir kaup á bankastarfsemi sinni til Danske Bank. Wahlroos sagði að félagið hefði áhuga á að fjárfesta í fjármálafyrirtæki í norður-Evrópu.