Fréttavefur Financial Times telur finnska tryggingafélagið Sampo, en Exista er kjölfestufjárfestir í því, vera líklegasti aðilinn til að kaupa tæplega 20% hlut sænska ríkisins í Nordea, stærsta banka Norðurlandanna, þegar hann verður seldur á næstu misserum.

Sænskir bankar hafa að mestu staðið af sér skjálftahrinur og sigöldur fjármálamarkaða heimsins vegna undirmálslánakrísunnar, miðað við ársreikninga SEB, Nordea, Handelsbanken og Swedbank, að því er fram kemur í Financial Times í dag.

Er vitnað í  Andreas Håkansson hjá greiningardeild UBS, sem segir að enginn bankanna hafi sætt virkilegri ágjöf og hafi haft þá skynsemi til að bera að halda sig við það sem þeir kunna öðru betur, þ.e. lánastarfsemi.

Financial Times segir þó ýmsar blikur á lofti yfir sænskum bönkum í náinni framtíð og bendir á í því sambandi að hægristjórnin í Svíþjóð hefur lýst því yfir að hún hyggist selja 19,9% hlut sinn í Nordea, stærsta banka Norðurlandanna, fyrir árið 2010 í tengslum við einkavæðingarstefnu sína. Þrálátur orðrómur hafi verið um hugsanlega samruna Nordea og SEB, hinn öfluga banka Wallenberg-fjölskyldunnar, en stjórnendur SEB hafi þó reynt að kveða þann kvitt niður.

Líklegri til að kaupa hlutinn sé þó finnska tryggingarfélagið Sampo, sem er að tuttugu prósentum í eigu Exista, en það hefur hægt og rólega verið að taka veigamikla stöðu í bankanum og á nú ríflega 10% hlut. Forsvarsmenn Sampo segja þó þau kaup einungis vera hefðbundna fjárfestingu.

Fáránlegur möguleiki

Financial Times nefnir líka möguleikann á að erlendir bankar, þar á meðal Kaupþing, Landsbanki Ísland og DnBNOR, myndu kaupa Swedbank, en hlutabréf í honum og SEB hafa lækkað umtalsvert í verði upp á síðkastið. Andreas Håkansson kveðst hins vegar telja möguleikann á að Swedbank yrði seldur og hlutaður sundur vera „algjörlega fáránlegan”.