Settur hefur verið á laggirnar samráðsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaðila á Rússlandsmarkaði vegna þeirrar stöðu sem upp er komin upp í viðskiptasamskiptum Íslands og Rússlands. Fyrsti fundur samráðsvettvangsins var haldinn í dag, undir forystu forsætisráðuneytisins, en fundinn sátu fulltrúar viðkomandi ráðuneyta og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Á morgun fundar samráðsvettvangurinn með fulltrúum Landssamtaka fiskeldisstöðva og Landssambands smábátaeigenda, en markmið samráðsvettvangsins er að greiða fyrir upplýsingagjöf og samræma aðgerðir þeirra sem að málinu koma.

,,Þetta eru fyrst og fremst upplýsingarfundir, þannig að menn séu ekki að vinna hver í sínu horni og menn séu eins samstilltir og hægt er, því hagsmunirnir skarast auðvitað víða," segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, við Viðskiptablaðið.

,,En auðvitað eru menn bara að fara af stað með þetta, það er gert ráð fyrir því að það verði áfram fundir og að menn haldi hvor öðrum upplýstum um hvernig hver og einn er að vinna úr sínum málum."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sat ekki fundinn.