Félag ráðgjafarverkfræðinga, Mannvirki - félag verktaka og Samtök arkitektastofa, með stuðningi Framfararsjóðs Samtaka iðnaðarins, hafa gefið út ný viðmið við gerð kostnaðaráætlana verklegra framkvæmda í mannvirkjagerð á Íslandi.

Útfærsla kostnaðaráætlana hefur hingað til ekki verið samræmd hér á landi þar sem hver hagaðili á markaðnum hefur komið sér upp sínu eigin verklagi við gerð og greiningu kostnaðaráætlana.

„Með útgáfu þessarar nýju aðferðarfræði er því stigið framfaraskref í að samræma gerð kostnaðaráætlana til að tryggja sama skilning og aðferðir við gerð þeirra, auk þess að tryggja aukinn rekjanleika kostnaðaráætlana við framúrkeyrslu verklegra framkvæmda,“ segir í tilkynningu.

Markmiðin með útgáfunni:

  • Skapa sameiginlegan skilning á markaðnum, hugtökum og orðskýringum
  • Búa til viðmið til að meta hversu vel umfang verkefnis er skilgreint
  • Auka rekjanleika á framúrkeyrslu

Útgáfan er ætluð verktökum, ráðgjöfum, verkfræðingum, hönnuðum og verkkaupum, hvort heldur eru opinberir verkkaupar eða verkkaupar á almennum markaði.

Opnaður hefur verið nýr vefur, kostnadur.is, þar sem hægt er að nálgast gögnin.