Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu algeran grundvöll þess að íslenskir neytendur hafi aðgang að alþjóðlegum stafrænum markaði á sviði fjártækni og fjármálaþjónustu.

Að sama skapi sé hún lykilatriði til þess að íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafi aðgang að nægjanlega stórum markaði til að þróun slíkrar þjónustu hér á landi borgi sig. „Ef við hefðum ekki aðild þá værum við aflokuð, það er bara þannig.“

Ekki aðeins hefðu evrópsk fyrirtæki ekki sjálfkrafa rétt á að bjóða þjónustu sína hér á landi, heldur gerir hún fastlega ráð fyrir að mjög takmarkaðar heimildir yrðu fyrir erlenda aðila að starfa hér samkvæmt lögum og að sama skapi lítil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að bjóða sína þjónustu erlendis.

Í ofanálag væri innlendi markaðurinn svo lítill að það borgaði sig ekki fyrir innlend fyrirtæki að þróa sambærilegar lausnir og erlendu fyrirtækin byðu upp á. „Það er mikið hagsmunamál fyrir okkar fyrirtæki og fjármálamarkaði að vera með þessa samræmdu löggjöf.“ Neytendur sætu því eftir með verulega skert þjónustuframboð.

Greiðslukerfi óháð viðskiptabanka
Fjártækni hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu ár, og ljóst er að áhrif framþróunar á því sviði geta haft mikil áhrif á starfsumhverfi fjármálaeftirlits. „Við erum ekki alveg farin að sjá ennþá hvernig framtíðin verður. Það er talað um það í eftirlitsheiminum að aldamótakynslóðin leggi ekki eins mikið upp úr því að geta treyst þeim sem hún á í viðskiptum við og þeir sem eldri eru, heldur er hún tilbúin að nota allar nýjungarnar og tæknina og hefur litlar áhyggjur af því hvort fyrirtækin séu traustsins verð. Þetta er kannski bara af því að fólkið er ungt og ekki búið að reka sig á og verða fyrir áföllum í lífinu, en það er allavega tekið eftir því hvað þetta er kynslóðaskipt.“

Mestu byltinguna sem sé sýnileg í farvatninu segir Unnur vera fólgna í hinni svokölluðu PSD2 tilskipun. Hún hefur ekki verið innleidd hér á landi ennþá, en er orðin hluti af sameiginlegu regluverki EES-svæðisins, og Ísland því skuldbundið til að innleiða hana. Í henni felst í grófum dráttum að greiðslumiðlunar- og önnur fjártækniþjónusta verður aðskilin hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi, svo neytendur munu sem dæmi geta valið um greiðslukerfi óháð því hjá hvaða banka þeir eru í viðskiptum. „Þetta hefur í för með sér mikla samkeppni við viðskiptabanka.“ Hún segir að með auknu vægi tæknilausna verði netöryggismál sífellt mikilvægari, bæði fyrir eftirlitið sjálft, og eftirlitsskylda aðila. „Netöryggi er meginógnin við þessa stafrænu fjártæknibyltingu alla.“

Unnur segist hins vegar ekki sjá fyrir sér að það yrði teljandi áskorun þótt eftirlitsskyldum fyrirtækjum fjölgaði nokkuð samhliða nýsköpun í fjártækni. Í litlu samfélagi eins og Íslandi verði innlendu fyrirtækin alltaf tiltölulega fá af hverri tegund, og eftirlit með erlendum fyrirtækjum sem starfi hér á landi sé framkvæmd í samvinnu við erlenda og yfirþjóðlega eftirlitsaðila. „Þegar fyrirtæki starfa yfir landamæri er náið samstarf milli eftirlitanna, og ef eitthvað bjátar á þá er tekið á því samræmt. Þetta er mjög mikilvægt til að hægt sé að treysta viðskiptum yfir landamæri. Meginvinnan er í raun að skilja starfsemina, svo það hvort fyrirtækin eru þrjú eða fimmtán breytir ekki öllu. Það er grunnvinnan sem er svo krefjandi, og hún er óháð fjölda þeirra.“

Þegar fram líða stundir sér Unnur fram á að PSD2 muni opna fyrir gríðarlega nýsköpun og samkeppni á sviði fjártækni og stafrænnar fjármálaþjónustu almennt, neytendum til hagsbóta, auk þess að skapa mikil atvinnutækifæri fyrir vel menntaða þjóð eins og Ísland.

Nánar er rætt við Unni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .