Samræmd vísitala neysluverðs á Íslandi hækkaði um 0,9% í júní, en í mánuðinum hækkaði vísitalan um 0,1% á Evrópska efnahagssvæðinu. Undanfarna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,1% á Íslandi, en um 1,8% á EES-svæðinu.

Athuga ber að þegar talað er um verðbólgu á Íslandi er miðað við íslensku neysluverðsvísitöluna en ekki þá samræmdu. Þó er áhugavert að sjá að tólf mánaða „verðbólga“ samkvæmt samræmdu vísitölunni hér á landi hefur minnkað hratt á árinu. Nam hún 6,1% í janúar og 6,2% í febrúar, en er eins og áður segir komin í 3,1%.

Á Evrópska efnahagssvæðinu hefur mánaðaraukning vísitölunnar einnig minnkað, þótt munurinn á milli mánaða sé töluvert minni en hér á landi.