Vodafone lýsti því yfir í kynningu á ársfjórðungsuppgjöri sínu í morgun að samrekstur dreifikerfa með Nova muni hefjast 1. nóvember næstkomandi, gangi allt að áætlunum. Áður höfðu félögin miðað að því að reksturinn hæfist 1. október, en ljóst er að framkvæmdir og samningar hafa frestast að einhverju leyti.

Skjöl og pappírsvinna eru í lokayfirferð hjá samningsaðilum, og stefnt er á lokaundirritun fyrir lok þessarar viku. Sérstakt félag, Sendafélagið ehf., hefur verið stofnað kringum samreksturinn og stjórnarmeðlimir félagsins hafa verið skipaðir.

Verkfræðistofan Mannvit mun fara með rekstur um umsýslan félagsins. Auk þess hefur kunnáttumaður við Samkeppniseftirlitið verið skipaður, og hefur hann haft eftirlit með ferlinu frá því samningar hófust.

Samnýtingin mun skila öflugra farsímakerfi fyrir viðskiptavini beggja félagana á sama tíma og fé sem myndi fara í fjárfestingar sparast. Vodafone áætlar sparnað í fjárfestingum upp á rúmlega 0.3% af veltu félagsins frá árinu 2016.

Til hefur staðið að fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Nova hefji saman rekstur á dreifikerfi farsímaþjónustu sinnar frá 2013, og samkeppniseftirlitið gaf fyrirtækjunum tveimur grænt ljós á samreksturinn í febrúar í ár. Viðskiptablaðið greindi ítarlega frá því.