Samræmd vísitala neysluverðs í EES-ríkjum var 100,9 stig í febrúar og hækkaði um 0,3% frá janúar. Á sama tíma var vísitalan fyrir Ísland 100,8 stig sem er 0,2% lækkun frá fyrri mánuði.

Frá febrúar 2005 til jafnlengdar árið 2006 var verðbólgan, mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs, 2,2% að meðaltali í ríkjum EES, 2,3% á evrusvæðinu og 1,2% á Íslandi. Þetta kemur fram í mælingum á samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birti í morgun.

Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands var á sama tíma 2,6% að meðaltali. Verðbólga á Íslandi samkvæmt þessum mælikvarða er með allra minnsta móti í Evrópu og aðeins í Svíþjóð, Póllandi og Finnlandi mældist minni verðbólga í febrúar.

Fram kemur í tilkynningu frá Hagstofunni, að mesta verðbólga á Evrópska efnahagssvæðinu á þessu tólf mánaða tímabili var 7,0% í Lettlandi, 4,5% í Eistlandi og 4,3% í Slóvakíu. Minnst var verðbólgan 0,6% í Finnlandi, 0,9% í Póllandi og 1,1% og Svíþjóð.

Í morgunkorni Glitnis kemur fram að verðbólgan hér á landi í febrúar mæld með vísitölu neysluverðs var nokkru meiri eða 4,1%. Helsti munur á þessum tveimur vísitölum er sá að vísitala neysluverðs tekur tillit til húsnæðisverðs en samræmda vísitalan gerir það ekki. Verðbólga hér á landi er því töluvert mikil samkvæmt þeim mælikvarða.

Glitnir greinir frá því að fastlega má búast við að munurinn á þessum tveimur mælikvörðum hér á landi muni minnka á næstu mánuðum. Annars vegar vegna þess að gengislækkun krónunnar mun stuðla að hærra innflutningsverði sem mun koma af fullum þunga inn í báðar vísitölurnar, þó með meiri þunga í þá samræmdu því innflutningsverðlag vegur meira í henni. Hins vegar vegna þess að dregið hefur úr hækkun húsnæðisverðs undanfarna mánuði og telur Glitnir að sú þróun haldi áfram næstu mánuði.