Að frumkvæði Ferðamálastofu er nú að hefjast röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu.

Um er að ræða samstarf Ferðamálastofu, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

„Gríðarlegur styrkur er fólginn í því að þessir öflugu aðilar taki höndum saman í samræmdu átaki við að kynna málstað Íslands erlendis,“ segir í tilkynningunni.

„Sem kunnugt er hefur á síðustu vikum mjög verið horft til ferðaþjónustu sem lið í eflingu íslensks atvinnulífs og mikilvægt að nýta tækifærin sem nú eru uppi í þeim efnum.“

Í tilkynningunni er haft eftir Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra að rekja megi hvatann að ferðinni til þess að Ferðamálastofu hafa að undanförnu borist fregnir af tilefnislausum fréttaflutningi um stöðu þjónustugreina á Íslandi og hafa söluaðilar á erlendri grundu haft samband við íslenska ferðaþjónustuaðila og lýst yfir áhyggjum sínum af sölumöguleikum á ferðum til landsins.

Fram kemur að til að bregðast við þessu ákvað Ferðamálastofa að kanna grundvöll fyrir ferð á helstu markaði okkar í Evrópu, til kynningar á stöðu mála á Íslandi og hvatningar til söluaðila okkar erlendis.

Meginmarkmið með ferðinni er að hitta söluaðila Íslands á erlendri grundu, ræða stöðu mála á Íslandi, fullvissa um að óstaðfestar fregnir af vandræðum séu ekki réttar og hvetja til dáða í sölu á Íslandsferðum.

Einnig hafa verið skipulagðir blaðamannafundir í hverju landi.

Í ferðinni verður farið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Þýskalands (Frankfurt) og Frakklands. Að sinni var ákveðið að bíða með að kynna stöðu mála í Hollandi og Bretlandi.

Starfsmenn Ferðamálastofu og formaður Ferðamálaráðs eru nú að kynna Ísland á World Travel Market ferðasýningunni í London, stærstu ferðasýningu í heimi, en ekki þótti rétt að fara út í frekari aðgerðir þar fyrr en staða mála skýrist.

Ferðaáætlun og dagskrá funda

Fundaferðin hefst í Stokkhólmi fimmtudaginn 13. nóvember og daginn eftir er fundað í París.

Á mánudeginum þar á eftir er síðan komið að Kaupmannahöfn, þá Frankfurt og endað í Osló.

Fundirnir hefjast með ávarpi sendiherra á hverjum stað, formaður SAF mun kynna stöðu mála eins og hún snýr að fyrirtækjum, ferðamálastjóri mun þá fara yfir framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og forstöðumaður Höfuðborgarstofu kynna sölumöguleika og nýjungar.