Stjórnir MP banka hf. og Straums fjárfestingabanka hf. hafa boðað til hluthafafunda hjá félögunum þann 22. júní næstkomandi. Á fundunum munu stjórnir félaganna leggja fram tillögu að samruna MP banka og Straums fjárfestingabanka sem byggir á samrunaáætlun sem samþykkt hefur verið og undirrituð af stjórnum beggja félaga. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Vinna við undirbúning samrunans hefur gengið vel og samkvæmt áætlunum. Stefnt er að því að nýr, sameinaður banki hefji starfsemi sína með haustinu undir nýju nafni,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að sameinaður banki verði til húsa í Borgartúni 25. Samruninn er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.