Stærsta bílasamsteypa Evrópu, Volkswagen AG mun kaupa 42% hlut í Porsche AG á þessu ári og er það hluti af áætlun um að sameina þessa gömlu keppinauta á árinu 2011.

Tilkynnt var um samkomulag þessa efnis í gær og ættu þar með að enda harðvítug átök á milli afkomenda Ferdinand Porsche, en greint er frá þessu á fréttavef The Detroit News. Eigendur Porsche, þ.e. Porsche og Piëch fjölskyldurnar munu eftir viðskiptin verða leiðandi hluthafar í samsteypu fyrirtækjanna, en Neðra-Saxland mun eiga 20% hlut í félaginu. Neðra-Saxland mun þrátt fyrir minnihluta hafa neitunarvald í stjórn félagsins og þar með afgerandi völd í félaginu samkvæmt umdeildum lögum.

Sonarsynir Ferdinand Posche, þeir Wolgang Porsche og Ferdinand Piëch mun hins vegar fara með formennsku í samsteypunni.

Martin Winterkorn forstjóri Volkswagen sagði að með þessu tækju Volkswagen og Porsche ákveðið skref inn í sameinaða framtíð.

Volkswagen mun borga í þrepum sem svarar 4,7 milljörðum dollara fyrir 42% hlutinn í Porsche samsteypunni. Porsche sem er skuldum vafið mun selja meiri hluta eignar sinnar í Volkswagen til ríkissjóðs Qatar, en eignarhaldsfélagið Porsche SE á nú 50,8% af atkvæðisbærum hlutabréfum í Volkswagen.

Þess má get að Ferdinand Porsche átti drjúgan þátt í að hanna gömlu Volkswagen bjölluna sem Hitler vildi gera að bíl alþýðunnar í Þýskalandi á sínum tíma.