Bréf Icelandair féllu töluvert í kauphöllinni í dag, en flest félög hækkuðu hóflega. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 3,3 milljörðum, og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,61%.

Hlutabréf í Icelandair lækkuðu um 9,1% í dag og standa nú í 8,08 krónum, aðeins rúmum 2% yfir því sem þau stóðu í við opnun markaða mánudaginn 5. nóvember, daginn sem fyrirhuguð yfirtaka flugfélagsins á sínum helsta keppinaut, Wow air, var tilkynnt.

Á fimmtudagsmorgun var tilkynnt að ekkert yrði úr yfirtökunni, og sama kvöld tilkynnti Wow air að samkomulag hefði náðst um að fjárfestingafélagið Indigo, sem á meðal annars stóran hlut í hinu ungverska Wizz air, fjárfesti í Wow air.

Viðskipti dagsins með bréf Icelandair námu samtals 308 milljónum króna, sem var þriðja mesta veltan á eftir 374 milljóna króna viðskiptum með bréf HB Granda, sem hækkuðu um 0,3%, og 870 milljóna króna viðskiptum með bréf Marel, sem hækkuðu um 2,1%.

Mest hækkuðu bréf Origo, um 3,8% í 114 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir komu bréf Haga með 2,2% hækkun í 180 milljóna viðskiptum.

13 félög af 18 hækkuðu á aðalmarkaði í dag, og aðeins þrjú lækkuðu, en auk Icelandair lækkuðu bréf Sýnar um 1,3% í 52 milljóna viðskiptum, og bréf Skeljungs um 0,3% í 113 milljóna viðskiptum.