Stórir samrunar í bókaútgáfugeiranum erlendis hafa verið óhjákvæmilegir í nokkurn tíma, eða frá því að netverslunin Amazon varð jafnstór og hún er núna, að mati ritstjóra tímaritsins The Bookseller.

Í frétt BBC segir að ritstjórinn, Philip Jones, hafi verið að bregðast við fréttum af hugsanlegum samruna bókaútgáfanna Penguin og Random House. Random House er stærsti bókaútgefandi Bretlands og Penguin sá þriðji stærsti.

Fyrrverandi forstjóri Borders bókaverslanakeðjunnar, Philip Downer, segir í samtali við BBC að bókaútgáfurnar þurfi að renna saman til að geta staðið í hárinu á Amazon og Apple. Er hér átt við getu þeirra til að ná góðum samningum við netverslanirnar, en sífellt stærri hluti bókaverslunarinnar fer fram á netinu.