*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 5. júlí 2019 19:01

Samrunaviðræður settar á ís

Ekki verður af fyrirhuguðum samruna Norðlenska og Kjarnafæðis, þar sem að aðilar náðu ekki saman.

Sveinn Ólafur Melsted
Norðlenska er með sauðfjársláturhús og kjötvinnslu á Húsavík.
Haraldur Guðjónsson

Á Norðurlandi eru starfrækt tvö stór kjötvinnslufyrirtæki, Norðlenska og Kjarnafæði. Til marks um það má nefna að samanlögð velta félaganna nam tæplega 9,5 milljörðum króna og samtals starfa rúmlega 300 manns hjá fyrirtækjunum. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona á meðan Norðlenska er í eigu Búsældar, en um 500 bændur eru hluthafar í því félagi.

Í lok síðasta sumars var greint frá því að Norðlenska og Kjarnafæði hefðu komist að samkomulagi um að hefja viðræður um samruna félaganna. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að viðræður séu ekki í gangi eins og staðan er í dag. Hann tekur fram að alls engin illindi séu milli aðila - þeir hafi einfaldlega ekki náð saman.

Þung ár fyrir kjötgeirann

Þegar rýnt er í ársreikning Norðlenska má sjá að tap félagsins nam 66 milljónum króna á síðasta rekstrarári og jókst frá fyrra ári þegar tapið nam 43 milljónum. Norðlenska velti 5,2 milljörðum króna. Eignir Norðlenska námu rúmlega 3 milljörðum króna í lok síðasta árs. Skuldir Norðlenska námu 2,4 milljörðum og eigið fé Norðlenska nam 636 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall Norðlenska var 21% í árslok 2018. Laun og launatengd gjöld námu 1,4 milljörðum króna hjá Norðlenska og voru ársverk 195.

Ágúst segir að staðan á rekstri félagsins sé þokkaleg um þessar mundir. Undanfarin ár hafi þó verið nokkuð þung í kjötgeiranum á Íslandi.

„Þar má helst um kenna að samkeppnin við innflutt kjöt hefur verið mjög hörð og á sama tíma hefur útflutningur á þeim vörum sem við erum að flytja út ekki skilað sambærilegri niðurstöðu og það gerði árin þar á undan. Gengið var mjög sterkt nokkur ár í röð, sem rýrði hag manna af útflutningi verulega. Þá hafði sterka gengið einnig þau áhrif að innfluttar vörur lækkuðu í verði. Á sama tíma var ráðist í töluverðar kjarabætur handa starfsmönnum á Íslandi og því fylgdi aukinn kostnaður fyrir fyrirtækin í landinu. Ofangreindir þættir úr ytra umhverfinu blönduðust ekkert sérstaklega vel saman. Þetta hefur því verið ákveðin brekka undanfarin ár."

Að sögn Ágústs hefur sala á framleiðsluvörum félagsins þó gengið með ágætum.

„Við finnum fyrir ánægju frá viðskiptavinum með þær framleiðsluvörur sem við bjóðum upp á. Það er okkar aðaláhersluþáttur að bjóða upp á íslenskar landbúnaðarvörur fyrir innanlandsmarkað. Við leggjum mikla áherslu á að þjónusta viðskiptavininn vel og teljum okkur hafa staðið okkur vel í því."

Ágúst segir að sú gengisveiking sem hefur átt sér stað hafi komið sér vel fyrir Norðlenska, enda hafi krónan verið of sterk.

„Krónan hefur veikst aðeins, sem er jákvætt fyrir okkur. Hagurinn af útflutningunum vænkaðist aðeins við það. Við eigum betri möguleika á að keppa við innflutninginn, sem var orðinn hlutfallslega mjög ódýr. Þeir kjarasamningar sem gerðir voru í vor eru síðan skárri en maður óttaðist. Ég hygg að það hafi verið heillaspor hvernig haldið var á þeim kjarasamningum, menn horfðu til þess að ekki mætti ganga að grunnframleiðslueiningum hagkerfisins dauðum, líkt og hætta hefði verið á ef farið hefði verið of geyst. Þar sem ég er mikill áhugamaður um innlendan iðnað og framleiðslu, þá hefði það hugnast manni illa að verðleggja hana alveg út af markaðnum. Þessi nálgun í kjarasamningum var góð og ég tel líklegt að hún muni koma til með að reynast launþegum og fyrirtækjum betur til lengri tíma litið."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér