Samruni tveggja af stærstu bjórframleiðendum heims er nú yfirvofandi eftir að bruggrisinn Anheuser-Busch InBev tilkynnti að hann hefði lagt fram kauptilboð í keppinautinn SABMiller. BBC News greinir frá þessu.

Þar kemur fram að samanlagt virði félaganna tveggja nemi að minnsta kosti 230 milljörðum dala, jafnvirði 29.500 milljarða íslenskra króna, miðað við gengi hlutabréfanna í gær.

AB InBev framleiðir meðal annars Budweiser, Stella Artois og Corona, en SABMiller á meðal annars vörumerkin Peroni og Grolsch.

Gangi samruninn eftir mun sameinað félag standa fyrir þriðjungi af allri bjórframleiðslu heimsins.