Stjórnendur danska lággjaldafélagsins Sterling eru opnir fyrir samstarfi eða samruna við annað flugfélag og telja líkur á að draga muni til tíðinda í þeim efnum á næstu tólf mánuðum.

Ljóst þykir að árið í ár verði félaginu ekki auðvelt enda vegur eldsneytiskostnaður þungt hjá Sterling og vísbendingar eru um að neytendur sé aðeins farnir að halda að sér höndum. Stjórnendur Sterling reikna því með að tap verði af rekstri félagsins í ár en að það verði þó hóflegt. Þetta kemur fram í opnufrétt Børsen um Sterling og framtíðarhorfur hjá félaginu.

Þar er haft eftir Þorsteini Erni Guðmundssyni, stjórnarformanni Sterling, að félagið sé opið fyrir og tilbúið í samstarf eða samruna við annað félag en ekki sé þó neinna tíðinda að vænta alveg í bráð – enda sé slíkt háð því að ná fram bættu leiðarkerfi.

„Það táknar að við erum reiðubúnir í hugsanlega sameiningu eða samstarf við aðra. Það gæti verið við félag í langflugi,“ segir Þorsteinn Örn.