Til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu er samruni fyrirtækjanna Fagkaupa ehf. og ÍJ ehf. Fagkaup ehf hefur keypt fjölmörg fyrirtæki í gegnum tíðina en félagið starfar á fyrirtækjamarkaði og skilgreinir sig sem virðisaukandi þjónustufyrirætki með iðnaðar- og byggingarvörur.

Sjá einnig: Kynnir Fagkaup til leiks

Fagkaup var kynnt til leiks árið 2019, en það var nýtt heiti á samstæðu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur utan um Vatn og veitur, Áltak, Sindra, S. Guðjónsson og Johan Rönning, en félagið keypti fyrrnefnd félög á árunum 2003-2017. Fagkaup á þannig fimm dótturfélög sem voru stofnuð til að halda utan um nöfn rekstrareininga innan félagsins.

Nýlega keypti félagið KH Vinnuföt, sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu á öllum tegundum af vinnufatnaði, en Viðskiptablaðið greindi frá kaupunum á sínum tíma.

ÍJ ehf er eignarhaldsfélag utan um heildverslunina Ísleifur Jónsson sem hefur verið í þjónustu hreinlætistækja í yfir 100 ár. Ásamt sölu hreinlætistækja rekur fyrirtækið lagnadeild.