*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 20. desember 2019 05:45

Samruni Gray Line og RSS samþykktur

Einn stærsti samruni í ferðaþjónustu var samþykktur í gær. Félögin tvö töpuðu samtals um milljarði króna á síðasta ári.

Ástgeir Ólafsson
Aðsend mynd

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Reykjavík Sightseeing Invest (RSS) á rekstrartengdum eignum Allrahanda GL, sérleyfishafa Gray Line á Íslandi. Ákvöðrun SKE lá fyrir í gær en í henni segir að samruni félaganna raski ekki samkeppni með alvarlegum hætti á skilgreindum samkeppnismörkuðum samruna málsins. Það er því niðurstaða eftirlitsins að viðkomandi samruni leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Ríflega hálft ár er síðan að skrifað var undir kaup RSS á rekstartengdum eignum Allrahanda. Sameining reksturs félaganna mun fara þannig fram að Allrahanda GL selur Reykjavík Sightseeing rekstrartengdar eignir gegn afhendingu hlutabréfa í félaginu. Þegar tilkynnt var um samrunan kom fram að megin ástæða fyrir honum væru óhagstæð rekstrarskilyrði sem leitt höfðu til óviðunandi afkomu.

Sjá einnig: Töpuðu samtals tæpum milljarði

Óhætt er að segja að afkoma félaganna tveggja hafi ekki verið góð á síðasta ári en samanlagt töpuðu þau tæplega milljarði króna á síðasta ári. Tap Allrahanda nam 516 milljónum á síðasta ári og jóskt um 321 milljón milli ára á meðan tap RSS nam 463 milljónum og jókst um 366 milljónir milli ára. Þá var eigið fé RSS neikvætt um 47 milljónir króna í lok síðasta árs. 

Tekjur Allrahanda GL voru voru tæplega 3,1 milljarður króna á síðasta ári á meðan samanlögð velta Reykjavík Sightseeing og dótturfélagsins Airport Direct nam samtals rúmlega 1,5 milljörðum. Tap sem hlutfall af tekjum var því um 17% hjá Allrahanda en um 30% hjá Reykjavík Sightseeing.

Stærra félagið í minnihluta?

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í september kom fram í samrunaskrá félaganna að eigendur Allrahanda verði í minnihluta í sameinuðu félagi þrátt fyrir að velta þess hafi verið um tvöfalt hærri á síðasta ári. 

Sjá einnig: Stærra félagið í minnihluta

Samkvæmt tillögu að skiptahlutföllum í samrunaskrá var gert ráð fyrir að eignarhald Reykjavik Sightseeing verði á þá leið að PAC1501 ehf. muni fara með 50,67% hlut en PAC1501 er nú langstærsti hluthafi Reykjavík Sightseeing með 89,53% hlut auk þess að eiga Hópbíla. PAC1501 er svo að fullu í eigu framtakssjóðsins Horn III sem er í rekstri Landsbréfa. Allrahanda mun svo fara með 43,4% hlut en það félag er í eigu Þóris Garðarssonar stjórnarformanns og Sigurdórs Sigurðssonar framkvæmdastjóra sem eiga hvor sinn 25,5% hlutinn auk þess sem framtakssjóðurinn Akur sem er í rekstri Íslandssjóða á 49% hlut.

Þá mun Sumardalur ehf., félag í eigu Torfa G. Yngvasonar, fara með 5,9% hlut en Sumardalur á 10,43% hlut í Rekjavík Sightseeing auk þess að hafa kauprétt á 2,58% hlut í félaginu af PAC1501. Þá mun Hjörvar Sæberg Högnason fara með 0,03% hlut í Rekjavík Sightseeing eftir samrunann. Þess ber þó að geta að endanleg skiptahlutföll liggja ekki fyrir. 

Lífeyrissjóðir stórir eigendur

 Eins og fram hefur komið mun PAC1501 fara með stærstan hlut í sameinuðu félagi eða um 50,67% verði skiptingartillagan að veruleika. Það félag er að fullu í eigu framtakssjóðsins Horn III í rekstri Landsbréfa en stærstu eigendur sjóðsins eru Lífeyrissjóður verslunarmanna með 19,9% hlut og Gildi Lífeyrissjóður með 15% hlut og munu sjóðirnir því eiga óbeint 10,1% og 7,6% hlut í sameinuðu félagi í gegnum Horn III. Sjóðirnir eru hins vegar líka stórir eigendur í gegnum framtakssjóðinn Akur í rekstri Íslandssjóða sem á 49% hlut í Allrahanda.

Lífeyrissjóður verslunarmanna fer með 19,9% hlut í Akri og Gildi með 17,07% hlut. í gegnum Akur og Allrahanda er óbeint eignarhald þeirra á sameinuðu félagi 4,2 og 3,6% til viðbótar. Verði skiptingartillagan að veruleika mun Lífeyrissjóður verslunarmanna því fara með samtals 14,3% óbeint eignarhald í sameinuðu félagi auk þess sem óbeint eignarhald Gildis verður 11,2% og mun samanlagt eignarhald sjóðanna því nema 25,5%.