Analog Devices, sem framleiðir hálfleiðara (e. semiconductor), tilkynnti fyrr í dag að það hafi náð samkomulagi um kaup á keppinauti sínum Maxim Integrated Products fyrir meira en 20 milljarða dollara, sem gæti orðið stærsti samruni ársins í Bandaríkjunum.

Markaðsvirði sameinaðs fyrirtækis verður um 68 milljarðar dollara. Hlutabréfaeigendur Maxim myndu fá 0,63 hluti í Analog fyrir hvern Maxim hlut en samtals munu þeir eignast 31% af eigin fé hins sameinaða fyrirtækis, segir í frétt WSJ .

Það hefur verið mikið um samruna í hálfleiðaraiðnaðinum en fyrirtæki undirbúa sig fyrir heim þar sem ýmiss konar tæki verða tengd internetinu.

Bæði fyrirtækin framleiða flaumræna örgjörva (e. analogue chips). Maxim sérhæfir sig í örgjörvum fyrir bíla, heilbrigðistæki og farsíma en tekjur þess námu 2,3 milljörðum dollara á síðasta fjárhagsári. Sala Analog nam sex milljörðum dollara á síðasta ári, þar af helmingur frá iðnaðarviðskiptavinum, að því er kemur fram í frétt FT .

Samkomulag Analog og Maxim er líklegast háð samþykki eftirlitsaðila í Bandaríkjunum, Kína og Evrópusambandsins. Analog gerir ráð fyrir að ganga frá samningnum næsta sumar.

Hlutabréf Maxim hafa hækkað um meira en 11% í kjölfar tilkynningarinnar en hlutabréf Analog fallið um 4%.