Allir fyrirvarar við samruna Heys – færeysks dótturfélags Sýnar – og Nema, dótturfélags Tjaldurs, hafa nú verið uppfylltir, og teljast kaupin því gengin í gegn. Kaupin miðast við 1. janúar 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hið sameinaða félag er sagt vera leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni og fjarskiptum. Samruninn hafi falið í sér kostnaðarhagræði og komi til með að „leysa úr læðingi frekari verðmætasköpun“ með fjölbreyttara vöruframboði og sölumöguleikum, einkum á fyrirtækjamarkaði.

Við kaupin eignast Sýn 49,9% hlut í sameinuðu félagi, og Tjaldur 50,1%, en auk þess fær Sýn greiðslu upp á 22 milljónir danskra króna, um 400 milljónir íslenskar. Viðskiptin leiða til 850 milljón króna söluhagnaðar fyrir Sýn, en í kjölfarið verður hlutur Sýnar í sameinaða félaginu færður með hlutdeildaraðferð.