Ketó-eldhúsið hefur fest kaup á öllum rekstri og vörumerki Ketó Kompanísins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ketó-eldhúsið hyggst halda áfram framleiðslu undir báðum vörumerkjum.

Bæði félögin voru stofnuð árið 2020. Ketó-eldhúsið er í eigu Einars Karls Birgissonar. Þá hefur Ketó Kompaníið verið í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar og Bjarna Ívars Waage.

Ketó-eldhúsið hefur framleitt og dreift tilbúnum ketóréttum, aðallega í verslunum Samkaupa. Ketó-eldhúsið er með samstarfssamning við Maríu Kristu ketó matgæðing um þróun og gerð uppskrifta.

Ómar Ingimarsson, framkvæmdastjóri Ketó-eldhússins:

„Við sjáum mikil tækifæri í að vinna með þessi vörumerki saman, og geta þannig aukið úrval af sykurlausum, glúteinlausum og ketó vörum á markaðnum. Bæði þessi vörumerki hafa verið með gott úrval af tilbúnum réttum, brauðmeti, kökum og ís sem hafa notið mikilla vinsælda síðan þær komu á markað“