Samruni kauphallarfélaganna NYSE Euronext og Nasdaq OMX er óskynsamlegur og felur í sér óyfirstíganleg vandamál vegna laga um einokun. Þetta hefur Reuters fréttastofa eftir heimildarmanni sem stendur nærri stjórn NYSE.

Nasdaq OMX, sem rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, gerði yfirtökutilboð í NYSE Euronext í síðustu viku ásamt Intercontinental kauphöllinni í Bandaríkjunum. Þá yfirbauð Nasdaq OMX tilboð Deutsche Boerse um 19%.

Heimildarmaður Reuters segir að tilboð Nasdaq sé alls ekki til umhugsunar hjá stjórn NYSE. Hlutabréfaverð í Nasdaq féll um 1,6 fyrir opnun markaða vestanhafs í dag. Þá segir aðilinn sem Reuters ræddi við að samruni myndi leiða til gríðarlegrar fækkunar starfa í New York og að hlutafé núverandi eigenda NYSE Euronext myndi hrapa í verði.