Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til íhlutunar vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands.

Í tilkynningu frá eftirlitinu segir í þessu máli sé byggt á því að sjónarmið um fyrirtæki á fallanda fæti eigi við. Það leiði til þess að ógilding samruna myndi í raun leiða til sömu niðurstöðu. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samrunaaðilar hafi sýnt fram á að þessi sjónarmið eigi við í málinu.

Meðal þess sem nefnt er þessari niðurstöðu til stuðnings er að sparisjóðurinn uppfyllir ekki lagaskilyrði starfsleyfisskylds fjármálafyrirtækis. Honum er ómögulegt af eigin rammleik að uppfylla eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Þá hafi ríkissjóður, sem á um 80% hlut í sjóðnum, alfarið hafnað því að leggja sparisjóðnum til fé. Meðal annars þess vegna voru kröfuhafar ekki reiðubúnir til að koma að lausn málsins.

Að mati Samkeppniseftirlitsins breyta annmarkar á söluferlinu, bæði tímafrestum og skilyrðum gagnvart einstökum fjárfestum, ekki niðurstöðu málsins. Ráði þar miklu að bjóðendur höfðu þekkingu á málinu vegna aðkomu að sölutilraunum annarra sparisjóða, auk þess sem þeir sögðu sig frá málinu áður en reynt hafði til fullnustu á tímafresti. Þá hafði einn hinna mögulegu fjárfesta ekki sýnt fram á hæfi sitt til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að FME hefði leiðbeint honum þar um.